Skuldabréfamarkaðurinn hefur verðlagt 50 punkta stýrivaxtahækkun hjá Seðlabankanum við næstu vaxtaákvörðun í maí til viðbótar við eins prósentu hækkunina sem bankinn tilkynnti um í gær. Þetta kemur fram í markaðspunktum sem Kvika sendi viðskiptavinum sínum í dag.

Þá hafi verðbólguálag á skuldabréfamarkaði þokast niður eftir að hafa skotist upp þegar verðbólgumæling Hagstofunnar sýndi 10,2% verðbólgu í febrúar. Verðbólguálagið er núna 5,4% til fimm ára.

Í fréttabréfinu kemur einnig fram að síðasti hluti af inngöngu Íslands í FTSE-Russell Emerging hlutabréfavísitöluna fór fram á föstudaginn og var velta dagsins með hlutabréf um 14 milljarðar í íslensku kauphöllinni.

Þrátt fyrir titring á fjármálamörkuðum í síðustu viku virðist sem að síðasti áfanginn hafi gengið ágætlega fyrir sig en ólíkt fyrri skiptum þá hækkuðu hlutabréf í verði í lokauppboðinu.