Velta á skuldabréfamarkaði nam rúmum sex milljörðum króna í dag, samkvæmt tölum frá GAMMA. Mun meiri viðskipti voru með óverðtryggð skuldabréf og hækkaði Óverðtryggði hluti skuldabréfavísitölu GAMMA um 0,2% í 4,7 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði hins vegar um 0,3% í 1,4 milljarða viðskiptum.

Nokkur doði hefur ríkt á skuldabréfamarkaði undanfarnar vikur enda hafa menn verið að bíða eftir ákvörðunum ríkisins, meðal annars í skuldamálum. Valdimar Ármann, sérfræðingur hjá GAMMA, bendir hins vegar á að markaðurinn hafi lifnað nokkuð við eftir að Hagstofan birti síðustu verðbólgutölur. Þær voru birtar á föstudaginn.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar var verðbólgan óbreytt á milli mánaða og tólf mánaða verðbólga lækkar um 0,3 prósentustig. Tólf mánaða verðbólga í október er 3,6%. Valdimar segir að frá því að þessar tölur voru birtar hafi fjárfestar í auknu mæli fært sig úr verðtryggðum bréfum yfir í óverðtryggð.