Velta á skuldabréfamarkaði nemur 12,3 milljörðum króna i dag. Það er vel yfir meðalveltu, en velta á skuldabréfamarkaði var einnig töluverð í gær. Ástæða hreyfingar á skuldabréfamarkaði hefur verið rakin til ákvörðunar Eignasafns Seðlabanka Íslands um að selja skuldabréf fyrir rúma 100 milljarða króna.

Velta með óverðtryggð bréf í dag nam 6,5 milljörðum króna en velta með verðtryggð bréf nam 5,8 milljörðum. Mest velta var með bréf í flokknum HFF 14, eða 2 milljarðar króna. það eru verðtryggð íbúðabréf. Velta með bréf í flokknum HFF 44 var einnig mikil, eða 1,2 milljarðar. Af óverðtryggðum bréfum var mest velta með bréf í flokknum RIKB 17, eða 1,6 milljarðar króna. Ávöxtunarkrafan í þeim flokki hækkaði um 17 punkta.

Í Morgunpósti IFS greiningar í dag segir að sala ESÍ á 100 milljarða skuldabréfi á næstu fimm árum sé til þess fallin að draga úr peningamagni í umferð og draga úr verðbólguþrýstingi og þar með þörfinni á stýrivaxtahækkunum. Væntingar um aukið framboð skuldabréfa og minni verðbólguþrýsting þrýsti á hækkun ávöxtunarkröfu skuldabréfa.