Eftir nokkuð sveiflukennt tímabil á skuldabréfamarkaði virðist vera að færast ró yfir hann að nýju, segir greiningardeild Glitnis.

?Hefur ávöxtunarkrafa verðtryggðra bréfa hækkað nánast samfellt undanfarinn hálfan mánuð, einkum á styttri enda vaxtaferilsins. Í fyrradag snérist þróunin við, í tiltölulega litlum viðskiptum og lækkaði krafa verðtryggðra bréfa lítillega.

Í gær flattist svo verðtryggði vaxtaferillinn eilítið út þar sem krafa hækkaði smávægilega á lengri endanum en lækkaði heldur á styttri endanum," segir greiningardeildin.

Hún segir að í ljósi þess hve bratti verðtryggða vaxtaferilsins hefur aukist síðustu vikur má ætla að það komi að því einhverjir fjárfestar fari að færa sig upp ferilinn, ekki síst að kaupa HFF14 en krafa hans hefur hækkað mest.

?Í spám okkar gerum við ráð fyrir að engin hækkun verði á vísitölu neysluverðs í næsta mánuði og að hækkun hennar verði 0,1% yfir næstu þrjá mánuði.

Áhættan í spánni liggur þó öll til hækkunar en gera má ráð fyrir að einhver þrýstingur skapist til lækkunar ávöxtunarkröfu verðtryggðra bréfa reynist verðbólgan yfir væntingum markaðarins.

Það er skoðun okkar að krafa íbúðabréfa, ekki síst styttri flokkanna, hafi hækkað of mikið og að það muni leiðrétta sig að hluta innan fjórðungsins. Ennfremur er það trú okkar að sú leiðrétting geti orðið snörp þegar hún á annað borð hefst," segir greiningardeildin.