Heildarviðskipti á skuldabréfamarkaði námu í gær 33 milljörðum króna, sem er nokkuð yfir meðaltali síðustu vikna.

Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans frá því í gær. Að vísu eru tvö tæplega 8 milljarða króna viðskipti með víxilinn RIKV 09 0915 meðtalin í fyrrnefndri fjárhæð.

Að því frátöldu báru viðskipti með ríkisbréf veltuna uppi, námu 19 milljörðum króna og lækkaði ávöxtunarkrafa þeirra um 15 til 34 punkta. Mest verðbreyting varð á lengsta bréfinu, RIKB 25, en verð þess hækkaði um 1,29% og var ávöxtunarkrafa síðustu viðskipta 8,41%.

Hagfræðideild Landsbankans segir að eflaust hafi tilkynning Lánamála ríkisins eftir lokun markaða síðasta föstudag þess efnis að ríkissjóður hefði náð útgáfumarkmiðum ársins, haft áhrif á hegðun markaðsins í gær.

„Þau skilaboð gefa til kynna að framboð ríkisbréfa muni ekki aukast á næstunni, jafnvel ekki fyrr en eftir áramót,“ segir í Hagsjá.

„Hingað til hefur markaðurinn átt von á töluverðri útgáfu til þess að fjármagna fyrirsjáanlegan halla í ríkisbúskapnum á næstunni. Við teljum ólíklegt að ríkissjóður láti staðar numið í lántöku þar sem betra er að hafa borð fyrir báru næstu misseri. Kjör ríkissjóðs á á skuldabréfamarkaði eru hagstæð um þessar mundir og ekki víst að svo bjóðist þegar til lengri tíma er litið. Við þessar aðstæður myndast óvissa á skuldabréfamarkaði og við það sveiflast ávöxtunarkrafa mikið. Ákjósanlegt væri að gefin yrði út tilkynning þar sem fyrirætlanir ríkissjóðs á skuldabréfamarkaði næstu mánuði yrðu útskýrðar. Slíkt myndi minnka óvissuna og stuðla að skilvirkari vaxtamyndun á skuldabréfamarkaði.“