Nokkrar sveiflur áttu sér stað á skuldabréfamarkaði fyrstu þrjá mánuði ársins, segir greiningardeild Glitnis.

Árið hófst á nokkuð mikilli og samfelldri hækkun ávöxtunarkröfu verðtryggðra bréfa. Tímabil hækkandi kröfu stóð fram yfir fyrstu vikuna í febrúar en þá varð viðsnúningur á markaði og tók krafan að lækka að nýju.

Uppúr miðjum febrúar breytti Fitch Ratings horfum á lánshæfismati ríkisins úr stöðugum í neikvæðar. Það ásamt frekar neikvæðri umfjöllun um íslenskt efnahagslíf sem fylgdi í kjölfarið ýtti undir áframhaldandi lækkunar ávöxtunarkröfunnar.

Upp úr miðjum mars tók krafan hins vegar að hækka aðeins að nýju og var niðurstaðan yfir fjórðunginn sú að ávöxtunarkrafa íbúðabréfa hækkaði um 6-15 punkta.

Eins og áður voru mestu sveiflurnar á stysta flokki íbúðabréfa, HFF14 sem kemur ekki á óvart. Ávöxtunarkrafa hans sveiflaðist um tæpa 90 punkta, fór hæst í 4,78% og lægst í 3,89%. Minnsta punktabreytingin var á lengsta flokki íbúðabréfa líkt og búast má við þar sem hver punktabreyting vegur meira í verði bréfsins eftir því sem líftími þess er lengri. Ávöxtunarkrafa hans sveiflaðist um rúma 40 punkta, fór hæst í 4,45% og lægst í 4,03%.

Ávöxtunarkrafa ríkisbréfa hækkaði töluvert á fjórðungnum. Gætti þar áhrifa hækkandi stýrivaxta og aukinna verðbólguvæntinga. Hækkaði krafa RIKB10 um rúmt prósent eða um 111 punkta og krafa RIKB13 um 84 punkta.

Viðskiptavakt með stysta flokkinn, RIKB07 var felld niður í mars þar sem flokkurinn er á gjalddaga í febrúar á næsta ári og í kjölfarið bjagaðist verðlagning flokksins verulega.