Uppsöfnuð sala skuldabréfa frá janúar til desember árið 2007 nam tæplega 398 milljörðum króna árið 2007, samanborið við 269 milljarðar króna árið 2006, samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands.

Heildarsala skuldabréfa í desembermánuði nam um 57,2 milljarði króna, samkvæmt upplýsingum frá bankanum.

Skiptist salan þannig að um 8,2 milljarðar króna var í formi verðtryggðra skuldabréfa og um 49 milljarðar króna var í formi óverðtryggðra skuldabréfa.

Þær fjármálastofnanir sem birta upplýsingar um útboð skuldabréfa eru KB banki, Íbúðalánasjóður, Íslandsbanki hf., Landsbanki Íslands hf., Íslensk verðbréf hf., Lánasýsla ríkisins, MP Fjárfestingarbanki, Verðbréfastofan hf., Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis (SPRON), Sparisjóður Kópavogs (SPK), Sparisjóðabanki Íslands hf., Sparisjóður Hafnarfjarðar (SPH) og Straumur Fjárfestingarbanki hf.

Mikil aukning í óverðtryggðum skuldabréfum

Í lokuðum útboðum nam sala skuldabréfa árið 2006 tæplega 200 milljörðum króna en í fyrra var sú tala rúmlega 315 milljarðar króna. Sala á óverðtryggðum skuldabréfum nam rúmlega 108 milljörðum króna árið 2006 en í fyrra nam salan tæplega 292 milljörðum króna.