*

sunnudagur, 25. ágúst 2019
Innlent 7. september 2018 10:33

Útboð WOW air að klárast?

Skúli Mogensen segir skuldabréfaútboð WOW air ekki vera í höfn en að það sé á lokametrunum.

Ritstjórn
Skúli Mogensen, forstjóri Wow.
Haraldur Guðjónsson

Skúli Mogensen, forstjóri Wow air, segir í samtali við Bloomberg að skuldabréfaútboð félagsins muni klárast öðrum hvorum megin við helgina.

Skúli segir útboðinu hafa verið vel tekið í Skandinavíu og London, og að fyrirséð sé að lágmarksmarkmið þess, 50 milljónir dollara, um 5,5 milljarðar króna, muni nást. „Þetta er ekki í höfn, en við erum á lokametrunum,“ er haft eftir Skúla.

Á síðustu vikum hafa borist fregnir af þröngri fjárhagsstöðu WOW air. Frá júlí í fyrra til loka júní á þessu ári, nam rekstrartap félagsins 45 milljónum dollara eða um 5 milljörðum króna.  Félagið er með vaxtaberandi skuldir upp á um 65 milljarða króna. Lögboðinn frestur til að skila ársreikningi fyrir árið 2017 rann út á miðvikudaginn en WOW hefur enn ekki skilað.

Norska verðbréfafyrirtækið Pareto Securities, sem sér um skuldabréfaútboðið, gerir ráð fyrir því að WOW muni skila 17 milljóna dollara hagnaði á næsta ári eða 1,9 milljarði króna. Á það að nást með auknum tekjum af dýrari fargjöldum og leigu á þremur Airbus flugvélum í vetur. Floti WOW telur 20 vélar af þeim er fyrirtækið með fjórar á kaupleigu, sem fyrirtækið mun eignast eftir átta ár, en 16 á leigu (e. dry lease).

Þegar skuldabréfaútboðið var kynnt um miðjan ágúst hugðist WOW air sækja sér 6 til 12 milljarða króna. Átti það að duga til að brúa reksturinn næstu átján mánuði en þá stefnir félagið að skráningu á markað. Skilmálar í útboðinu hafa breyst frá því það var fyrst kynnt. Nú fá fjárfestar, sem taka þátt í úboðinu, kauprétt að hlutafé þegar það verður skráð. Fá fjárfestarnir 20 til 25% afslátt af skráningargenginu.

Í samtali við Bloomberg segir Skúli að ákvörðunin um að hafa bréfin umbreytanleg í hlutabréf verið tekin að ósk kaupenda.

Viðskiptablaðið hefur heimildir fyrir því að á þriðjudaginn hafi Skúli hafi fundað með forsvarsmönnum hjá Arion banka og Stefni.

Stikkorð: Skúli Mogensen Wow air Wow