Töluverður skriður er kominn aftur á útgáfu skuldabréf í krónum erlendis. Greiningardeild Íslandsbanka segir í Morgunkorni að í vikunni nemi útgáfan alls um 12 milljöðrumkróna og í heild sé útgáfaskuldabréfa í krónum kominn í 151,6 milljarða.

Greiningardeild Íslandsbanka bendir á að KfW hafi verið að bæta við sína útgáfu sem sé komin í 23 milljarða. Þá segir: "Líklegt má telja að útgáfan haldi áfram á meðan vaxtamunur við útlönd er mikill og styðji við gengi krónunnar líkt og raunin hefur verið undanfarið. Meiri óvissa ríkir hins vegar um hvað muni gerast þegar bréfin koma á gjalddaga. Stór hluti bréfanna er á gjalddaga í september á næsta ári."

Bent er á að fari svo að erlendir fjárfestar kjósi að fara út úr stöðu sinni í krónunni megi búast við snarpri veikingu hennar vikurnar á undan: "Staðreyndin er hinsvegar sú að erfitt er að segja til um hvað erlendu fjárfestarnir gera. Allt eins má búast við því að einhver hluti þeirra velji að framlengja stöðu sína og mun það draga úr áhrifum á gengi krónunnar. Niðurstöður rannsókna hafa sýnt að mjög algengt er að fjárfestar sýni tregðu til að innleysa tap. Sé það raunin mun staða stöðutökunnar í krónunni á gjalddaga skuldabréfanna því væntanlega hafa einhver áhrif á ákvörðun fjárfesta. Samkvæmt þessu eru meiri líkur á því að þeir fjárfestar sem er í tapi með stöðutökuna framlengi henni."