Lántaka íslensks banka, skuldabréfaútgáfa Landsbankans upp á 2.250 milljónir Bandaríkjadala (158 milljarðar íslenskra króna) frá því í ágúst í fyrra, er á lista hjá fagritinu Credit Magazine yfir bestu lántökur ársins 2006, segir í tilkynningu frá Landsbankanum.

Í tilkynningunni segir að Credit Magazine hafi valið lántökur sem þóttu vinsælar á meðal fjárfesta og gengu vel á erlendum mörkuðum. Lántakan bar vott um gott aðgengi Landsbankans að fjármálamörkuðum.

Landsbankinn gaf út skuldabréfin, sem hluta af reglulegri endurfjármögnun bankans, í samvinnu við Bank of America, Citigroup og Deutsche Bank.
Credit Magazine er eitt stærsta fagrit í heimi um fjármála- og skuldabréfamarkaði.

Í útboðinu var boðið upp á skuldabréf til fimm ára með föstum vöxtum að andvirði 1.500 milljónir dala og skuldabréf til þriggja ára með breytilegum vöxtum að andvirði 750 milljónir dala. Heildareftirspurn í útboðinu var alls fyrir skuldabréfum að andvirði 4 milljarðar dala, segir í tilkynningu Landsbanakns.