Orkuveita Reykjavíkur tók tilboðum í útgáfu á nýjum skuldabréfum og víxlum að nafnvirði 2.710 milljónir króna, en heildartilboð bárust í 3.180 milljónir króna samtals.

Boðnir voru út víxlar til 7 mánaða fyrir allt að 1.360 milljónir króna og verðtryggð jafngreiðsluskuldabréf fyrir allt að 4.500 milljónir króna, í tveimur flokkum til tæplega 8 og 30 ára.

Víxlar fyrir 1,35 milljarða og skuldabréf fyrir 1,36 milljarða

Tók Orkuveitan tilboðum í víxlana að andvirði 1.350 milljónir króna með ávöxtunarkröfuna 6,30%, en tilboðin sem bárust voru með ávöxtunarkröfu á bilinu 5,59-6,75%.

Í styttri skuldabréfaflokkinn tók Orkuveitan tilboðum að nafnverði 500 milljónir króna á 3,37% ávöxtunarkröfu, en tilboðin sem bárust voru með ávöxtunarkröfu á bilin 3,30-3,37%.

Í lengri skuldabréfaflokkinn tók Orkuveitan tilboðum að nafnverði 860 milljónir króna á 3,29% ávöxtunarkröfu, en tilboðin sem bárust voru á bilinu 3,13-3,34%.

Fjársfestingarsvið Arion banka sá um útboðið og verður óskað eftir því að verðbréfin verði til til viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallar Íslands, þar sem fyrsti viðskiptadagur verður tilkynntur með að lágmarki eins dags fyrirvara.