Skuldabréfaútgáfa íslenska ríkisins markar tímamót og er afar jákvætt skref í endurreisn íslensks efnahagslífs, að sögn Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.

Eins og VB.is fjallaði um fyrr í dag hefur íslenska ríkið gengið frá samningum um útgáfu skuldabréfa að fjárhæð 750 milljónir evra. Á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins er fjallað um skuldabréfaútgáfuna. Þar kemur fram að skuldabréfin beri 2,5% fasta vexti og séu gefin út til sex ára á ávöxtunarkröfunni 2,56%. Fjárfestahópurinn sé vel dreifður og samanstandi aðallega af fagfjárfestum frá Evrópu og Bandaríkjunum.

Í tilkynningunni er haft eftir Bjarna Benediktssyni að ríkissjóður sé að sýna fram á fulla burði til að fjármagna skuldir sínar á Evrópumarkaði, þeim markaði sem skipti mestu máli fyrir fjármögnun ríkja. Hann segir að kjör ríkissjóðs á erlendum mörkuðum hafi batnað verulega á síðustu mánuðum. Með útgáfunni sé greitt fyrir aðgangi innlendra aðila sem sækja í erlent lánsfé.

Viðbrögð fjárfesta við skuldabréfaútgáfunni voru mjög góð og eftirspurn nærri þreföld upphæð útgáfunnar. Bjarni segir að eftirspurnin sýni trú fjárfesta á íslensku efnahagslífi og þeim árangri sem náðst hafi í ríkisfjármálum. Andvirði útgáfunnar verður varið til þess að greiða niður lán frá Norðurlöndunum og AGS sem tekin voru í tengslum við efnahagshrunið 2008.