Velta með skuldabréf nam tæplega 20 milljörðum króna í dag, annan daginn í röð. Í gær voru skuldabréf ríkissjóðs að upphæð 70 milljarðar króna í eigu erlendra aðila á gjalddaga og skýrir að minnsta kosti hluta af þessari miklu veltu. Hafa eigendur þeirra skuldabréfa endurfjárfest í ríkistryggðum verðbréfum undanfarna daga, mest í óverðtryggðum ríkisbréfum.

Skuldabréfavísitalan GAMMA: GBI hækkaði um 0,5% í dag  hefur nú hækkað um 1,1% á tveimur dögum í samtals 40ma veltu. GAMMAi: Verðtryggt hækkaði um 0,6% í 7,8 ma. viðskiptum og GAMMAxi: Óverðtryggt hækkaði um 0,3% í 11,9 ma. viðskiptum.

Mesta verðbreytingin var í lengri flokkum íbúða- og ríkisbréfa. Veltan í RB19 var 3,7 milljarðar í dag og nam verðbreytingin 0,59%. Íbúðabréf á gjalddaga 2044, HFF 44, hækkuðu um um 0,59% og nam velta með þau einnig 3,7 milljörðum króna. Ávöxtunarkrafa allra skuldabréfaflokka lækkaði. Mest lækkaði krafan á HFF 24 eða um tíu punkta.