Viðbrögð á skuldabréfamarkaði við stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans eru í grófum dráttum í takti við það sem vænta mátti. Í rauninni má segja að skuldabréfafjárfestar hafi tekið forskot á sæluna í gær í kjölfar frétta af óvæntri lækkun vísitölu neysluverðs.

Um þetta er fjallað í Morgunkorni Íslandsbanka en þar segir að hluta af þeirri myndarlegu lækkun sem varð á ríkisbréfum í gær megi skrifa á auknar væntingar um vaxtalækkun í morgun.

Viðskipti með ríkisbréf hafa verið með líflegasta móti í morgun, en öllu meiri ró ríkir yfir verðtryggðum bréfum. Viðskipti með fyrrnefndu bréfin námu kl. 11 í morgun 4,7 milljörðum króna en viðskipti með hin síðarnefndu námu 1,3 milljörðum króna.

Það sem af er degi hefur krafa ríkisbréfa lækkað um 2-14 punkta, mest á styttri enda vaxtaferilsins. Lítilsháttar lækkun hefur raunar einnig orðið á kröfu íbúðabréfa, sem ætti ekki að koma á óvart eftir mikla kröfuhækkun í gær að því er segir í Morgunkorni.