Skuldabréfavísitala Gam Management, GAMMA GBI, hækkaði um 2,07% í apríl samkvæmt yfirliti sem fyrirtækið hefur gefur út. Vísitala fyrir óverðtryggð skuldabréf, GAMMAxi, hækkaði um 2,25% en um 1,98% fyrir verðtryggð skuldabréf. Það sem af er ári hafa óverðtryggð bréf nú skilað 8,27% ávöxtun á móti 4,02% ávöxtun verðtryggðra bréfa.

Í yfirliti frá GAMMA kemur fram að töluvert var um útboð verðtryggðra bréfa í apríl og var gefið út 20 milljarðar af verðtryggðum bréfum en einungis 3,5 milljarðar í óverðtryggðum bréfum þ.e. RB11. Í verðtryggðu var gefið út 1,8 milljarðar í HFF24, 2,2 milljarðar í HFF34, 3,2 milljarðar í HFF44 og 12,9 milljarðar í nýju verðtryggðu ríkisbréfi RIKS21.

„Þrátt fyrir meiri verðtryggða útgáfu, jókst hlutfall verðtryggðra bréfa einungis um 0,12% þar sem afborgun var af HFF34 og lækkaði þar af leiðandi vigt hans. Eru verðtryggð bréf nú 70,15% af heildarvísitölunni. Markaðsverðmæti skuldabréfa jókst um 44 milljarða og er nú 1.207 milljarðar. Meðallíftími vísitölunnar hefur verið tiltölulega stöðugur í kringum 8,5 ár undanfarna 7 mánuði og er nú 8,45 ár," segir í yfirliti frá GAM Management.