Engar eignir voru til upp í tæplega 166 milljóna króna lýstar kröfur í þrotabú félagsins RST ehf. Félagið er í eigu Guðna N. Aðalsteinssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra fjárstýringar hjá Kaupþingi, og hélt það utan um eign hans á hlutabréfum í bankanum og lána sem hann fékk hjá bankanum til hlutabréfakaupa.

Fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að Guðni var á meðal þeirra fjögurra starfsmanna Kaupþings sem fengu sérstaks leyfi hjá Hreiðari Má Sigurðssyni, forstjóra Kaupþings, til að flytja skuldir og hlutabréf inn í einkahlutafélög áður en bankinn fór á hliðina. Guðni flutti 1.261 milljón króna inn í einkahlutafélagið RST ehf í október árið 2008.

Fram kemur í ársreikningi RST fyrir árið 2011 að skuldir þess upp á tæpa 1,6 milljarða króna hafi verið felldar niður. Þá kemur fram í ársreikningi félagsins í fyrra að eigið fé félagsins var neikvætt um 95 milljónir króna. Mestu munaði þar um ógreidd opinber gjöld upp á 95 milljónir króna. Á sama tíma voru engar eignir félaginu.

Félagið var úrskurðað gjaldþrota 12. september síðastliðinn og lauk skiptum 28. nóvember.