Reykjanesbær áætlar að svonefnt skuldahlutfall bæjarsjóðs verði komið niður í 195% árið 2014, samkvæmt þriggja ára áætlun sem lögð var fram í bæjarstjórn í gærkvöldi. Gert er ráð fyrir að rekstrarafgangur og peningalegar eignir verði nýttar til að greiða niður skuldir á tímabilinu. Gert er ráð fyrir að skuldahlutfall samstæðu verði komið í 211% árið 2014. Skuldahlutfall mælir heildaskuldir á móti rekstrartekjum eins árs.

Þetta segir í tilkynningu til Kauphallar um þriggja ára áætlun bæjarfélagsins. Ársreikningur Reykjanesbæjar var birtur í gær og skilaði bæjarsjóður 639,7 milljóna króna rekstrarhagnaði á síðasta ári. Rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var jákvæð um tæpar 351 milljón króna. Heildareignir Reykjanesbæjar námu um 52,1 milljörðum króna í árslok 2010. Heildarskuldir Reykjanesbæjar námu um 43,4 milljörðum króna en þar með eru taldar m.a. skuldir HS veitna og framreiknaður leigukostnaður til næstu 25 ára, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallar í gær. Í lok árs 2010 mældist eiginfjárhlutfall samstæðu 16,79% en bæjarsjóðs 19,07%.

„Verkefnið framundan er að styrkja lausafjárstöðu og eigið fé sveitarfélagsins. Um 19 milljarða kr. peningalegar eignir bæjarins, utan lögbundinna verkefna sveitarfélaga, geta styrkt lausafjárstöðu og lækkað skuldir verulega. Aðgerðir á þessu ári (2011) munu styrkja eiginfjárstöðu Reykjanesbæjar umtalsvert. Raunhæfustu leiðirnar til styrkingar á fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar eru virkjun þeirra mörgu atvinnutækifæra sem bærinn hefur barist fyrir undanfarin ár.“

Ársreikningur Reykjanesbæjar .

Þriggja ára áætlun Reykjanesbæjar .