Samdrátturinn á evrusvæðinu hefur komið illa við bresk fyrirtæki. Svokölluð PMI-vísitala fyrir Bretland mældist 50,5 stig í apríl. Hún var 51,9 stig í mars. Önnur eins lækkkun hefur ekki sést síðan í maí árið 2009 þegar heimshagkerfið var upp á sitt versta.

Niðurstaða PMI-vísitölunnar er vísbending um það hvernig pantanabók iðnfyrirtækja lítur út. Nú hefur semsagt dregið úr pöntunum. Þetta er talsvert daprari niðurstaða en búist var við. Meðalspá hljóðaði upp á örlítinn samdrátt á milli mánaða.

Vísitalan hefur ekki verið lægri síðan í desember í fyrra og bendir til þess að hljóð einkageirans hafi eða séu við það að stöðvast.

Í netútgáfu breska dagblaðsins Guardian í dag segir að niðurstaðan þýði bara eitt: vonbrigði fyrir fjármálaráðherrann George Osborne enda ljóst að landið sé á ný komið inn í niðursveiflu. Þá þykja þetta ekki góðar fréttir fyrir forsætisráðherrann David Cameron sem hafi reynt að glæða von um efnahagsbata í brjóstum landa sinna.

Guardian hefur eftir Rob Dobson, hagfræðingi hjá markaðsrannsóknafyrirtækinu Markit sem heldur utan um vísitölumælinguna, að ljóst sé að skuldakreppan á evrusvæðinu og neikvæð áhrif hennar hafi snert við breskum iðnfyrirtækjum þar sem þeim hafi borist færri pantanir en áður frá helstu viðskiptalöndum Breta. Það eina sem getur ýtt við fyrirtækjunum er efnahagsbati og auknar pantanir, að hans mati.