Skuldakreppan á evrusvæðinu getur haft áhrif á eftirspurn eftir íslenskum afurðum. Afkoma alþjóðlegra fyrirtækja á borð við Marel hefur þegar látið á sjá auk þess sem sjávarútvegsfyrirtæki hafa kvartað yfir sölutregðu í Evrópu, að því er fram kemur í Markaðspunktur greiningardeildar Arion banka.

Greiningardeildin bendir á það í Markaðspunktunum í dag að alþjóðlegar stofnanir hafa fært niður hagspár sínar. Rifjað er upp að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) geri ráð fyrir því í hagspá sinni frá í síðasta mánuði að hagvöxtur á heimsvísu verði 0,2-0,3% minni en spáð var í júlí. Í Markaðspunktunum segir m.a. að niðurfærslan hafi verið mest á meginlandi Evrópu en reiknað er með 0,4% samdrætti á evrusvæðinu á þessu ári og 0,2% vexti á næsta ári.

Greiningardeild Arion banka birti eftirfarandi mynd í Markaðspunktunum í dag. Þar má sjá hagvaxtarhorfurnar samkvæmt spá AGS.