Skuldakreppan á evrusvæðinu hefur ekki haft neikvæð áhrif á eignasafn þrotabús gamla Landsbankans, að sögn Ársæls Hafsteinssonar hjá skilanefnd Landsbankans. Raunvirði eignasafnsins jókst að raunvirði um níu milljarða króna á milli fjórðunga í lok september. Á móti valda gengisbreytingar því að áætlað verðmæti eignasafnsins lækkaði um 14,5 milljarða króna.

Áætlað verðmæti útlána og krafna þrotabúsins nam 201 milljarði króna í lok september. Þetta er 24 milljarða króna lækkun á milli fjórðunga. Það jafngildir 11% lækkun.

Fram kom á fundi skilanefndar og slitastjórnar Landsbankans í morgun að umtalsverður árangur hafi náðst í endurheimtum útlána þrátt fyrir aðstæður á meginlandi Evrópu.

Mestur hluti af útlánum og kröfum gamla Landsbankans er til fyrirtækja í Bretlandi. Lægri útlánakröfur liggja í Hollandi og Kanada.

Ársæll Hafsteinsson sagði þetta skýrast af því að lánað hafi verið til traustra evrópskra fyrirtækja í Evrópu sem hafi staðið af sér hremmingar á mörkuðum.