Gera má ráð fyrir að leiðréttingaraðgerðir ríkisstjórnarinnar valdi hækkun fasteignaverðs upp á um 1,5% á ári umfram almennar hækkanir. Þetta kemur til vegna aukinnar veltu upp á 7-9% sem spáð er í þjóðhagslíkani Analytica sem var sett upp til að meta áhrif aðgerðanna.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynntu á laugardaginn áætlun ríkisstjórnarinnar sem miðar að því að fella niður skuldir heimila um 80 milljarða og að gera fólki kleift í þrjú ár að nota séreignarsparnaðargreiðslur skattfrjálst til að greiða inn á húsnæðislán. Þegar aðgerðirnar voru kynntar var farið yfir væntanleg áhrif þeirra sem ráðgjafafyrirtækinu Analytica var fólgið að meta. Í kynningunni var ekki komið inn á fasteignaverð en þar kom þó fram að gert væri ráð fyrir 2% aukningu í íbúðafjárfestingu strax á næsta ári en kröftugri áhrifum fram til ársins 2017.

Þess má geta að fasteignaverð hefur umtalsverð áhrif á þróun neysluverðsvísitölunnar. Reiknuð húsaleiga húseigenda nemur um 12,7% af neysluverðsvísitölunni og greidd húsleiga um 4%. 1,5% hækkun fasteignaverðs ætti því að skila sér í 0,2-0,25% aukinni verðbólgu. Í líkani Analytica eru því aðrir þættir sem þurfa að koma til lækkunar til að vega upp á móti hækkandi fasteignaverði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .