*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 17. október 2013 11:06

Skuldaleiðrétting ekki í gegnum þingið fyrir jól

Bjarni Benediktsson segir tvær nefndir vinna að tillögum á lausn skuldavanda heimilanna. Þær skila af sér á næstu tveimur mánuðum.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Haraldur Guðjónsson

„Ég er ekkert sérstaklega vongóður á að við klárum þetta fyrir jól,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra um skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar. 

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði Bjarna að því í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag hvort boðaðar skuldaaðgerðir sem ríkisstjórnarflokkarnir töluðu um fyrir kosningarnar í vor séu vangaveltur eða hvort von sé á þeim. Hann sagði aðgerða líklega ekki að vænta fyrr en eftir áramót.

Bjarni svaraði því til að ekkert hafi breyst í þessum málum. Tvær ráðherranefndir vinni að tillögum að leiðréttingu skulda heimilanna og skili þær af sér í nóvember og desember. Eftir að tillögunum hefur verið skilað þarf að taka þær til skoðunar og meðferðar á Alþingi.

„Við ætlum að vinna í þeim vanda sem hefur birst í skulda- og greiðsluvanda heimilanna. Það er alvarlegt mál sem við getum ekki talað um af léttúð í þingsal,“ sagði Bjarni og lagði áherslu á að málið væri í þeim farvegi sem margoft hafi verið rætt um.