Tiltrú á Íslandi sem skuldara myndi ekki aukast ef skuldaleiðrétting verður fjármögnuð í gegnum Seðlabankann, segir Sigurður Jóhannesson, hagfræðingur hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, við fréttastofu RÚV . Hann segir að það yrði heldur ekki í anda samkomulagsins sem gert var við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, sagð á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í fyrradag að fjármögnun skuldaniðurfellingarinnar með þessum hætti væri öruggasta leiðin til að senda lánshæfismat ríkisins beinustu leið í ruslflokk. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra brást illa við þessu og sagði tiltekna einstaklinga í Seðlabankanum vera í pólitík.

Sigurður Jóhannesson segist ekki alveg sjá hvernig þetta yrði flokkað hjá matsfyrirtækjunum. „En þetta verður væntanlega ekki til að auka trú á Íslandi sem skuldara. Og þessi áætlun sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti upp hérna  og kom á í samstarfi við stjórnvöld,  þetta er ekki í þeim anda eða til að auka trú á því, að minnsta kosti fyrst um sinn, að við komum til með að draga smám saman úr skuldasöfnun og verðum þá tilbúnir til þess að borga skuldir okkar á endanum,“ segir Sigurður.