Dómsmál Haga gegn Arion banka er komið á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur og verður það tekið fyrir 5. mars í næstu viku. Málið snýst um þá niðurstöðu fyrirtækjasviðs endurskoðendafyrirtækisins KPMG að Hagar eigi 824 milljónir inni hjá bankanum miðað við gengislánadóma Hæstaréttar.

Hagar fengu skömmu eftir skráningu félagsins á markað í desember árið 2011 tæpar 515 milljónir króna endurgreiddar frá Arion banka vegna endurútreiknings á erlendum lánum félagsins.

Í mars í fyrra greindi svo stjórn Haga frá því að miðað við niðurstöðu fyrirtækjasviðs KPMG ætti félagið enn meira inni hjá bankanum og ákvað hún að höfða dómsmál til að fá það sem stjórnendur Haga töldu standa út af endurgreiðslunni. Arion banki hafði hins vegar áður tilkynnt stjórn Haga bréfleiðis að bankinn telji dóm Hæstaréttar hafa takmarkað fordæmisgildi og eigi félagið því ekki rétt á frekari endurútreikningi.