Tillögur ríkisstjórnarinnar um skuldaniðurfellingar vegna verðtryggðra lána voru lagðar fram um síðustu helgi. Fyrirfram ríkti nokkur óvissa um það hvaða þjóðhagslegu áhrif þessar aðgerðir kynnu að hafa. Aðilar vinnumarkaðarins höfðu sérstakar áhyggjur af því hvort skuldaniður­ fellingarnar kynnu að vera þensluhvetjandi og geta leitt til aukinnar verðbólgu en verðbólgan er einn af þeim þáttum sem samningsaðilar hafa haft miklar áhyggjur af.

Reyndar hafa bæði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, og Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA verið sammála um að algjört skilyrði sé að hér takist að koma böndum á verðbólguna. Af fyrstu viðbrögðum fulltrúa vinnumarkaðarins að dæma telja þeir aðgerð­irnar hafa óveruleg áhrif á verðbólguhorfur og því ættu þær ekki að hafa nein meiri háttar áhrif á gerð kjarasamninga. Í samtali við vb.is sagði Þorsteinn: „Miðað við mat Analytica á þjóðhagslegum áhrifum þessara aðgerða virðast þær hins vegar hafa óveruleg áhrif á verðbólguhorfur og því ættu þessi áform ekki að hafa neikvæð áhrif, til dæmis hvað varðar gerð kjarasamninga."

Í samtali við Ríkisútvarpið sagði Ólafur Darri Andrason, deildarstjóri hag­ deildar ASÍ: „ Við höfum viljað sjá hvað kæmi út úr þessu, hvort við værum að fara inn í einhvers konar efnahagslega kollsteypu eða mikla verðbólgu. í fljótu bragði virðist það ekki vera þannig að mér sýnist að við getum haldið áfram að vinna að gerð nýs kjarasamnings."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.