Frumvarp vegna skuldaniðurfellingaráforma ríkisstjórnarinnar verður lagt fram í þessum mánuði. Í frétt mbl.is um málið segir Tryggvi Þór Herbertsson verkerfnastjóri um framkvændina að málið sé á áæltun og að frumvarpið verði lagt fram á næstu dögum eða vikum. „Við erum að vinna að frumvarpinu og það er á áætlun. Þetta verður lagt fram einhvern tímann á næstu dögum eða næstu vikum. Allavega í þessum mánuði. Þetta miðast fyrst og fremst við að hægt verði að standa við það að hlutirnir geti farið að gerast um mitt ár. Það er áætlunin," segir Tryggvi Þór.

Í Frjálsri verslun sem kom út í dag segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra að vinnan sé á lokametrunum og að tæknilegur undirbúningur hafi verið í fullum gangi. Hann gerir ekki ráð fyrir því að framkvæmdin þurfi að vera flókin þar sem endurútreikningur eigi að vera tiltölulega einfaldur í flestum tilvikum.