Einar Björn Einarsson, eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins Jökulsárlón ferðaþjónusta ehf., ætlar að bjóða í jörðina Fell á uppboði sem fer fram þann 4. mars á næsta ári . „Það sem vakir fyrir mér núna er að eignarhald á jörðinni komist í hendur eins lögaðila en ekki sundurslitins hóps," segir Einar í samtali við Viðskiptablaðið.

Einar á 100% hlut í félaginu Ranhóll ehf. Ranhóll fer með eignarhlut Einars í Jökulsárlóni ferðaþjónustu ehf. og að auki alla hluti í félaginu Reynivellir ehf. Það félag á 10,5383% eignarhlut í Felli, jörðinni sem liggur austan við Jökulsárlón.

Í DV kemur fram að sameiginlegur eignarhlutur Reynivalla og Einars Björns í Felli sé um 23%. Þar að auki er íbúðarhús, útihús og jörð á Reynivöllum 3 og þriðjungshlutur í jörðinni Reynivellir 1 í eigu Reynivalla. Báðar jarðirnar liggja við austurhlið Fells.

Samkvæmt ársreikningum þessara þriggja félaga eru skuldir þeirra við banka engar. Handbært fé var aftur á móti 552.329.408 krónur í árslok 2013. Stærstur hluti var á bankareikningi Ranhóls í Sparisjóði Hornafjarðar, eða 386.676.244 krónur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .