Nú bíða 310 mál afgreiðslu hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála en nefndinni hafa í heild borist 429 mál. Afgreiðsla mála hefur gengið hægt en til nefndarinnar má kæra ákvarðanir sem teknar eru af embætti umboðsmanns skuldara á grundvelli laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Kærunefndin var skipuð í ágúst 2010 um sama leyti og embætti umboðsmanns skuldara varð til. Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara, benti í viðtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku á að fjöldi mála biði enn afgreiðslu hjá nefndinni.

Eins og kunnugt er var það svo að þar til í júlí 2011 fóru allir þeir sem leituðu til embættis umboðsmanns í greiðsluskjól um leið og umsókn barst, áður en metið var hvort umsókn þeirra uppfyllti skilyrði um greiðsluaðlögun. Í síðasta mánuðinum áður en greiðsluskjóli lauk bárust embætti umboðsmanns tæplega 800 umsóknir sem eru jafn margar umsóknir og bárust allt árið 2012. Í kjölfarið barst kærunefndinni fjöldi mála á árinu 2012. Þau sitja þar hins vegar mörg enn og bíða afgreiðslu. Á meðan eru margir þeirra sem strax fengu greiðsluskjól enn í slíku.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð.