Einstaklingur, sem er ófær um að standa í skilum með skuldbindingar sínar, getur fengið endurgjaldslausa aðstoð við að leita nauðasamninga um skuldaaðlögun við kröfuhafa sína, nái tillögur dómsmálaráðherra þar um fram að ganga.

Tillögurnar voru kynntar á ríkisstjórnarfundi í morgun. Í þeim kemur fram að um sé að ræða úrræði fyrir einstaklinga sem ekki hafa stundað atvinnurekstur undanfarin þrjú ár.

Með skuldaaðlögun eru skuldir viðkomandi einstaklings lagaðar að greiðslugetu hans. „Til dæmis má kveða á um algera eftirgjöf samningskrafna, hlutfallslega lækkun þeirra eða gjaldfrest á þeim, svo eitthvað sé nefnt," segir í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu.

Þar segir að tillögurnar verði lagðar fyrir Alþingi sem frumvarp um breytingu á gjaldþrotaskiptalögum í byrjun næsta árs.