Eigendur skulda eru oft viljugri til samningaviðræðna en stjórnmálamenn gefa í skyn. Ráðgjafarfyrirtæki og lögfræðistofur sem stjórnvöld fá til liðs við sig geta síðan stundum leitt ráðamenn í vitlausa átt. Þetta segir Hans Humes sem rekur vogunarsjóðinn Greylock Capital. Hann hefur meðal annars farið fyrir samninganefndum kröfuhafa í viðræðum við stjórnvöld í Argentínu, Grikklandi og Belize. Rætt er við Humes í Morgunblaðinu í dag. „Gott dæmi um þetta er sú staða sem komin er upp í skuldamálum Argentínu. Spyrja verður hvort lögfræðistofan sem annast málið fyrir bandarískum dómstólum hefur beinna hagsmuna að gæta af löngu og kostnaðarsömu dómsmáli, umfram aðrar leiðir“, segir Humes.

Á morgun flytur Humes erindi á fundi Rannsóknarmiðstöðvar um samfélags- og efnhagsmál kl.16.00 í Þjóðminjasafni Íslands.

Humes mun þar fara yfir þær hugmyndir um hvaða leiðir séu í stöðunni til að semja við kröfuhafa en hann segist þó ekki vera sérfræðingur í skuldavanda Íslands. Hann hefur hinsvegar reynslu af því að sitja við samningaborðið þegar semja þurfti við ríki um erfiða skuldastöðu.