Matsfyrirtækið Moody’s metur lánshæfi 142 þjóðríkja sem bera á milli sín skuldir upp á 62,2 þúsund milljarða Bandaríkjadala sem jafngildir 7,7 milljónum milljarða íslenskra króna. Þessi skuldabaggi gæti orðið til vandræða að mati Moody’s sem segir vaxandi ókyrrð einkenna stjórnmál margra þjóða sem og á alþjóðlegum vettvangi.

Dregið hafi hægt og bítandi úr hagvexti í heimsbúskapnum að undanförnu þótt vöxturinn hafi aldrei náð sér á fyrra strik eftir fjármálahrunið 2008. Minnkandi hagvöxtur að samanlögðu við vaxandi pólitíska spennu kunni að valda fjölmörgum þjóðum erfiðleikum. Sér í lagi er hætt við að þetta umhverfi muni reynast erfitt þeim þjóðum sem standi veikt, glími við flókinn innviðavanda, lítinn gjaldeyrisforða eða óhagstæða aldurssamsetningu á vinnumarkaði.

Ef áhyggjur Moody’s raungerast á næsta ári er hætt við að sömu þjóðir muni ekki standa undir skuldabyrðinni og endi í greiðsluþroti (e. sovereign default).

Rodrigo Olivares-Caminal, lagaprófessor á sviði banka- og fjármálaþjónustu, við Queen Mary University í London, tekur undir með greiningu Moody’s í grein á miðlinum The Conversation .

Sú óheppilega staða er nú uppi að heimshagkerfið sitji á þjóðríkja-skuldasprengju, að mati Caminal. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn staðfesti þessa sýn en hann tiltekur 32 þjóðríki sem eigi í hættu að kikna undan skuldabagganum. Skuldir þessara ríkja hafi ríflega þrefaldast síðastliðin tvö ár.

Líkt og AGS er það samdráttur í milliríkjaviðskiptum, viðskiptastríð stórveldanna og hægari hagvöxt sem helst veldur Caminal áhyggjum. Þessu til viðbótar segir hann vaxandi pólitíska spennu á vettvangi stjórnmálanna bæði vera orsök og afleiðingu versnandi efnahagshorfa. Þá segir hann að áskoranir hvað varði óhagstæða aldurssamsetningu á vinnumarkaði og sjálfvirknivæðingu fjórðu iðnbyltingarinnar ekki bæta úr skák í annars mjög erfiðu tafli.

Hann minnir á hve erfiðlega hafi gengið að greiða úr vanda ríkja sem hafi gjaldfallið á skuldum sínum. Ástandið í Venesúela sé gott dæmi en þar ríki nú neyðarástand og  er reiknað með að verðbólga í lok ársins verði 10.000.000%.

Caminal er ekki bjartsýnn í niðurlagi greinarinnar en segir söguna geyma mikilvægar lexíu um hvernig eigi að bregðast við hættunni. Ráðast þurfi tafarlaust til atlögu við vandann, sama hversu flókinn og rótgróin hann er. Frestun og bið geri ávallt illt verra. Lánsfjármagn verði að fara í arðbærar fjárfestingar en ekki til að standa undir hefðbundnum rekstri hins opinbera. Ef ráðamenn beri gæfi til að hlíta þessum ráðum sögunnar megi mögulega afstýra árekstrinum sem sé í uppsiglingu.