Skuldastaðan hefur afar slæm áhrif á fasteignamarkað og skilyrði fólks til þess að standa í slíkum viðskiptum. Um þetta segir m.a. í Peningamálum Seðlabanka Íslands: „Velta á fasteignamarkaði mun að líkindum ekki aukast að ráði fyrr en heimilin fá meiri vissu um fjármálalega stöðu sína og aðstæður á vinnumarkaði og framtíðartekjur batna.“ Húsnæðisverð hefur lækkað um 35% að raunvirði frá því það var hæst, árið 2007. Atvinnuhúsnæði hefur hins vegar lækkað um 52% að raunvirði.

Þá hefur einnig áhrif að lánakjör eru slæm um þessar mundir, ekki síst þar sem verðbólga mælist enn há, eða 8,3% á ársgrundvelli. Verðtryggð lán, sem langalgengust eru á húsnæðismarkaði, eru því óhagstæð nú og ekki mikill hvati fyrir fólk til þess að taka þau og fjárfesta í húsnæði. Makaskipti, þar sem íbúðir eru notaðar sem hluti af kaupverði, hafa verið algeng eftir hrunið og voru raunar um tíma í fyrra næstum helmingur allra viðskipta.

Það sem af er ári hafa þau verið á milli 20 til 30% allra viðskipta, sem er einstakt meðal ríkja með þróaða fjármálamarkaði að því er Viðskiptablaðið kemst næst.

Í Peningmálum Seðlabankans hefur áður komið fram að þessi þróun er líkleg til þess að draga fremur úr nákvæmni við mælingar á verði eigna fremur. Þá hefur þetta einnig þau áhrif, til lengri tíma, að verð lækkar fremur en hækkar. Ástæðan fyrir því er ekki síst sú að virði eigna í samningunum er aukaatriði í makaskiptaviðskiptunum, heldur frekar það sem greitt er á milli.