Gjaldeyrisforði Seðlabankans verður aukinn á næstunni með eiginfjárframlagi frá ríkissjóði sem að líkum verður fjármagnað með skuldabréfaútgáfu erlendis, segir greiningardeild Glitnis, og vitnar í ræðu Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabankans, á ársfundi bankans á föstudaginn.

Greiningardeildin telur þó ólíklegt að gjaldeyrisforðinn verði stækkaður á næstunni.

?Ríkissjóður er líka vel í stakk búinn til aðgerða að þessu tagi þar sem skuldastaða hans er mjög góð. Ólíklegt er þó að forðinn verði stækkaður allra næstu daga, enda skilyrði Íslendinga á erlendum fjármagnsmörkuðum erfið, jafnvel þótt um ríkissjóð sé að ræða," segir greiningardeildin.

Í ræðu Davíðs kom fram ríkisstjórn og bankinn hefðu í sameiningu ákveðið að auka við gjaldeyrisforðann, og væri þar fremur horft til breytinga á alþjóðlegu efnahagslegu umhverfi en þess óróa sem ríkir á mörkuðum nú um stundir.

Þó er ljóst að erlendir aðilar hafa margir hverjir horft til gjaldeyrisforðans undanfarið, til dæmis í hlutfalli við innflutningsverðmæti eða veltu á gjaldeyrismarkaði, og þótt hlutfallið vera heldur lágt, segir greiningardeild Glitnis.

Gjaldeyrisforði Seðlabanka er nú nálægt 80 milljörðum króna, samkvæmt upplýsingum Glitnis, sem gróflega samsvarar þriggja mánaða verðmæti vöruinnflutnings eða veltu tveggja stórra viðskiptadaga á gjaldeyrismarkaði. Auk þess hefur bankinn lánalínur hjá erlendum fjármálastofnunum sem grípa má til þegar gjaldeyrisforðanum sleppir.

Greiningardeild Glitnis segir að væntanleg aukning forðans sé þó óháð þessum lánalínum, og því styrkir hún bankann í því hlutverki að vera lánveitandi til þrautavara og/eða bregðast við miklum sviptingum í gengi krónu.