Hlutafé Icelandic Water Holdings, sem átappar vatni undir merkjum Icelandic Glacial, hefur verið aukið um 40 milljónir dollara, jafngildi um 4,7 milljarða króna að sögn Fréttablaðsins sem ræðir við Jón Ólafsson, stjórnarformann félagsins í dag. Á meðal nýrra hluthafa er bandaríski bankarisinn JP Morgan en auk þess hefur belgíski drykkjarvöruframleiðandinn Anheuser-Busch InBev, sem m.a. framleiðir Budweiser, Beck's og Stella Artois, aukið hlut sinn um rúm 4% í 23,3%. Jón og Kristján, sonur hans, eru enn sem fyrr stærstu hluthafar en nú með um 55% hlut.

Í hlutafjáraukningunni fólst m.a.breyting skulda yfir í hlutafé fyrir um 28 milljónir dala og hefur Fréttablaðið eftir Jóni að skuldir félagsins séu komnar niður í 20 milljóir dala en þær voru í árslok 2009 um 67 milljónir dala. Auk hlutafjáraukningarinnar er aukinni sölu fyrir að þakka. Á fyrstu þremur mánðuðum ársins jókst sala Icelandic Glacial um 86% og er Kanada stærsti vaxtarmarkaðurinn en um 80% heildarsölunnar á sér stað í Bandaríkjunum.

Að sögn Jóns er heildarfjárfestingin í Icelandic Water Holdings nú orðin um 13 milljarðar króna.