Skuldastaða stærstu sveitarfélaga landsins hélt áfram að batna á síðasta ári. Skuldaviðmið lækkuðu og geta sveitarfélaganna til að mæta skammtímaskuldbindingum sínum jókst. Hjá nokkrum sveitarfélögum urðu jafnvel tímamót í skuldamálum á síðasta ári.

Minnkandi eftirstöðvar og lækkandi skuldaviðmið

Viðskiptablaðið tók úrtak 22 sveitarfélaga til skoðunar í úttekt á afkomu og fjárhagsstöðu sveitarfélaga landsins. Umfjöllun Viðskiptablaðsins um afkomu sveitarfélaganna má finna hér . Úrtakið miðar við sveitarfélög sem töldu 1.500 íbúa eða fleiri í upphafi árs 2016. Íbúafjöldi úrtaksins er tæplega 295.000 eða um 88,5% landsmanna. Tíu stærstu sveitarfélög landsins eru í úrtakinu, en íbúafjöldi þeirra er tæplega 80% landsmanna. Mið­ að er við samstæðuuppgjör hvers sveitarfélags, þ.e. sveitarsjóð (Ahluta) ásamt fyrirtækjum, stofnunum og öðrum rekstrarreikningum sveitarfélagsins (B-hluta). Sveitarfélögin hafa mörg hver birt ársreikninga fyrir árið 2016, sem og upplýsingar úr fyrri umræðum bæjarstjórna um ársreikninga síðasta árs, en fimm sveitarfélög (Seltjarnarnes, Skagafjörður, Norð­urþing, Hornafjörður og Sandgerði) sem telja yfir 1.500 íbúa höfðu ekki gert upplýsingar úr uppgjörum síðasta árs opinberlegar áður en úttektin birtist í Viðskiptablaðinu síðastliðinn fimmtudag.

Frá árinu 2011 hafa sveitarfé­lögin greitt niður langtímaskuldir, en það ár námu skuldir sveitarfélaga landsins 8,4% af vergri landsframleiðslu. Til að mynda námu skuldir tíu stærstu sveitarfélaga landsins við lánastofnanir um 380,4 milljörðum króna árið 2011. Á síðasta ári voru eftirstöðvarnar 296,3 milljarðar í lok árs og heildarskuldir sveitarfé­ laga í landinu um 6,4% af landsframleiðslu. Skuldirnar hafa verið greiddar niður með fjármagni úr rekstri og nýjum lántökum. Sérstaklega hafa gengistryggð lán verið nánast greidd upp að fullu eða endurfjármögnuð.

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum ber sveitarfélögum að halda heildarskuldum og skuldbindingum undir 150% af reglulegum tekjum. Þetta er hið svokallaða skuldaviðmið. Við útreikning á viðmiðinu eru þrjú atriði höfð til hliðsjónar, sem geta komið til frádráttar á skuldum og skuldbindingum: leiguskuldbindingar frá ríkissjóði, lífeyrisskuldbindingar sem koma til greiðslu eftir 15 ár og jákvætt, hreint veltufé. Þá geta sveitarfélögin undanskilið skuldir og skuldbindingar sem hljótast af eignarhlutum þess í veitu- og/ eða orkufyrirtækjum séu þær umfram 30% af heildarskuldum og skuldbindingum sveitarfélagsins. Sveitarfélögin birta nú opinber skuldaviðmið, ólíkt því sem áður var.

Skuldaviðmið sveitarfélaganna í úrtakinu var 104% að vegnu meðaltali í lok síðasta árs borið saman við um 116% árið áður. Skuldaviðmiðið lækkaði hjá öllum sveitarfélögunum í úrtakinu, nema hjá Fjallabyggð. Þá færðust Kópavogsbær og Hafnarfjarðarbær undir skuldaviðmið­ ið og eru nú aðeins tvö sveitarfélög í úrtakinu yfir viðmiðinu – Reykjanesbær (209%) og Fljótsdalshérað (181%). Skuldaviðmið voru í flestum tilfellum lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Fleiri kennitölur benda til þess að skuldastaða sveitarfélaganna hafi batnað á síðasta ári. Veltufjárhlutfall sveitarfélaganna í úrtakinu hækkaði að meðaltali úr 1,2 í 1,4 milli ára, sem bendir til batnandi getu til að mæta skammtímaskuldbindingum. Heildarskuldir sem hlutfall af rekstrartekjum, svokallað skuldahlutfall, héldu áfram að lækka, úr 132% að vegnu með­altali í 121%. Þá hækkuðu eiginfjárhlutföll að vegnu meðaltali úr 38% í rúmlega 41%.

Í mörgum tilfellum var um tímamót að ræða í skuldastöðu sveitarfélaganna. Til að mynda hefur skuldaviðmið Ísafjarðarbæjar ekki verið lægra frá því fyrir 2011. Skuldir Vestmannaeyjabæjar hafa lækkað um 90% frá 2006 og skuldahlutfall Hafnarfjarðarbæjar hefur ekki verið lægra í aldarfjórðung. Þá er Grindavíkurbær með neikvætt skuldaviðmið og því skuldlaust samkvæmt þeirri nálgun.

Sveitarfélögin stóðu frammi fyrir brattri afborgunarbrekku árin 2010 til 2013, en á næstu árum dregur úr afborgunarbyrð­ inni samkvæmt afborgunarferli sveitarfélaganna. Miðað við afborgunarferil tíu stærstu sveitarfélaga landsins verða skuldir við lánastofnanir komnar í 178,6 milljarða árið 2021, á þeirri forsendu að engin langtímalán verði tekin og verðbætur verði engar.

Þá fengu skuldsett sveitarfélög meðbyr þar sem verðbólga var lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir - og verðbætur og fjármagnsgjöld þar af leiðandi lægri en ella.

Uppsöfnuð fjárfestingarþörf

Frá 1998 til 2015 voru fjárfestingar sveitarfélaganna að meðaltali 14,6% af rekstrartekjum á ári, miðað við tölur frá Hagstofunni. Frá árinu 2009 hafa fjárfestingar hins vegar setið á hakanum og verið að jafnaði undir 10% af rekstrartekjum. Fjárfestingar sveitarfélaganna hafa þannig verið undir langtímameðaltali frá hruni á meðan athygli sveitarfélaganna hefur beinst að afborgun langtímalána og hagræð­ingu fremur en að fjárfestingum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .