Niðurstaða ríkisreiknings fyrir árið 2013 bendir til þess að þróunin sé á réttri leið. Árangurinn þarf þó að vera betri til þess að sett markmið náist. Þetta er mat Hagfræðideildar Landsbankans sem fjallar um efnahag ríkisins í nýrri Hagsjá.

Hagfræðideildin bendir á að niðurstaða ríkisreiknings hafi verið talsvert betri en reiknað var með, fyrst og fremst vegna um 25 ma.kr. tekjufærslu í tengslum við eignaaukningu ríkisins í Landsbankanum.

Skuldastaðan sé þó enn mikið áhyggjuefni. Skuldir standi nokkurn veginn í stað á nafnvirði, en að raunvirði fari þær lækkandi. Hlutfall heildarskulda af vergri landsframleiðslu hafi farið yfir 117% á árinu 2011, en lækkaði niður í 115% árið 2012 og í 108% á síðasta ári.

Að mati Hagfræðideildar er þetta þróun í rétta átt, en engu að síður séu skuldirnar mjög háar í sögulegu samhengi og í samanburði við þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við. Þá sé vaxtakostnaður mikil byrði og var nálægt 75 milljörðum króna árið 2013. Til samanburðar megi benda á að rekstur Landspítalans á síðasta ári kostaði rúma 40 milljarða króna.

Samkvæmt Hagsjánni var vaxtakostnaður ríkisins á síðasta ári því 80% hærri en rekstrarkostnaður spítalans.