Skuldatryggingaálagið á íslenska ríkið hefur snarlækkað síðustu misseri og mælist nú í kringum 373 punkta samkvæmt vef Bloomberg fréttaveitunnar.

Þannig hefur álagið lækkað úr rétt undir 1000 punktum frá seinustu áramótum.

Athygli vekur hversu hratt skuldatryggingaálagið hefur lækkað hlutfallslega mun meira á íslenska ríkið í ár  en hjá mörgum öðrum löndum sem hafa farið illa út úr fjármálakrísunni, t.d. hefur skuldaraálag á  Írland einungis lækkað um 20 punkta úr 180 í 145 punkta á árinu.

Greiðslugeta ríkissjóðs að batna?

Agnar Tómas Möller, hagfræðingur hjá GAM Management (GAMMA) segir, aðspurður um ástæður þessa, að allt útlit sé fyrir að erlendir aðilar meti stöðuna sem svo að greiðslugeta ríkissjóðs sé að batna miðað við það sem var um í síðustu áramót.

„Það er ekki hægt að skýra þetta eingöngu af því að kreditmarkaðir séu almennt að batna,“ segir Agnar Tómas.

„Hlutfallsleg minnkun á skuldatryggingaálagi á Ísland er mun meiri en gerist annars staðar. Skuldaraálag þeirra vísitölu sem inniheldur félög sem eru við það komast í fjárfestingarflokk, Ísland hefur verið á mörkunum að detta þar út, var á svipuðum stað og Ísland í upphafi árs, eða um 1000 punktar. Síðan þá hefur það lækkað niður í 530 punkta á sama tíma og Ísland hefur farið niður í 373 punkta. Það er ekki hægt að túlka það á annan hátt en að þeir sem eiga viðskipti með skuldaraálög íslenska ríkisins meti það sem svo að greiðslugeta ríkissjóðs sé að batna, þ.e. að minni líkur séu á að ríkið standi ekki við erlendar skuldbindingar sínar.“

Fimm ára vextir á Íslandi um 7,6%

Aðspurður um frekari áhrif á lækkandi skuldatryggingaálagi bendir Agnar Tómas á að lánið frá Bretum [Icesave lánið – innsk.blaðamanns.] sé á 5,5% vöxtum sem er um 1,6% álag á breska ríkisvexti til sambærilegrar tímalengdar, og að lánin frá Norðurlöndunum séu á 2,8% vaxtaálagi, sem er bæði nokkuð lægra en ríkið gæti hugsanlega fjármagnað sig á í evrum, ef skuldaraálagið sé merki um möguleg fjármögnunarkjör á markaði .

Til samanburðar séu ríkistryggð skuldabréf þýska ríkisins með 2,4% vöxtum og hugsanlega gæti íslenska ríkið tekið 5 ára lán  á um  6% vöxtum sem sé mun betra en áður hafi sést.

„Þannig eru 5 ára vextir í krónum komnir vel yfir hugsanleg fjármögnunarkjör íslenska ríkisins í evrum,“ segir Agnar Tómas.

„Fimm ára vextir á Íslandi eru í kringum 7,6% á meðan fjármögnunarkjörin í evrum gætu verið um 6%.“