Skuldatryggingaálag bankanna hefur hækkað á ný eftir að hafa komið hratt niður undanfarna mánuði.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis.

Þar er greint frá því að skuldatryggingaálag bankanna náði sögulegum hátindi undir lok mars þegar álag á skuldatryggingar Kaupþings og Glitnis komst yfir 1.000 punkta og álag á skuldatryggingaálag Landsbankans fór upp í 800 punkta.

„Þessi mikla hækkun átti rætur sínar að rekja til áhlaups sem talið er að gert hafi verið á íslenska hagkerfið sem Fjármálaeftirlitið hefur nú til athugunar. Hækkunin var því tilkomin af kaupum vogunarsjóða og fjárfesta sem vildu freista þess að hagnast á fjármálaóstöðugleika með því að kaupa skuldatryggingar í hagkerfum þar sem líkur þykja á efnahagsskelli í náinni framtíð. Fljótlega eftir að þessum hátindi var náð fór álagið hinsvegar lækkandi sem benti til þess að þessir sömu aðilar hafi gefið upp von um að sú þróun gangi nógu hratt eftir,“ segir í Morgunkorni.

Þá segir að eftir að vinda tók ofan af álagi á skuldatryggingar bankanna náði álagið fljótlega jafnvægi og hélst nokkuð stöðugt í maímánuði.

Þannig hélt skuldatryggingaálag Kaupþings sig í grennd við 440 punkta í maí, álag Glitnis var stöðugt í kringum 400 punkta og skuldatryggingaálag Landsbankans vék aldrei langt frá 230 punktum.

Greining Glitnis greinir frá því í Morgunkorni að í síðustu viku tók álagið hinsvegar að stíga á ný og stendur skuldatryggingaálag Kaupþings nú í 525 punktum, álag Glitnis í 500 punktum og Landsbankans í 285 punktum.

Þá kemur fram í Morgunkorni að íslensku bankarnir eru ekki einir um þessa þróun því að Itraxx vísitalan sem mælir þróun skuldatryggingaálags stærri fyrirtækja í Evrópu hækkaði einnig í síðustu viku. Vísitalan stendur nú í 80 punktum en var í 60 punktum í byrjun maí.

„Þessi þróun er vísbending um að áhættufælni á heimsvísu sé að aukast á ný. Hækkandi olíuverð og vaxandi ótti þess efnis að tímabil langvarandi stöðnunar sé framundan í bandarísku efnahagslífi er talið eiga stóran þátt í þeirri þróun,“ segir í Morgunkorni Glitnis.