Skuldatryggingaálagið á íslensku bankana og íslenska ríkið hefur hækkað jafnt og þétt undanfarinn mánuð og hlutfallslega mun meira en sem nemur hækkun iTraxx Financials-vísitölunnar.

Álagið á Kaupþing og Glitni stendur nú í um 880 punktum, 600 punktum á Landsbankann og í 275 punktum á íslenska ríkið en iTraxx stendur í 95 punktum.

Fyrir mánuði síðan var álagið 515, 475 og 265 á bankana og 163 punktar á íslenska ríkið en iTraxx þá stóð í 72 punktum.

Síðastliðinn mánuð hefur því iTraxx hækkað um þriðjung en á sama tíma hefur álagið á bankana hækkað um 70%-125% og um 70% á íslenska ríkið.

Skuldtryggingaálagið á íslensku bankana hefur iðulega sveiflast meira en sem nemur breytingum á iTraxx en sem helstu skýringu á hækkuninni nú nefna menn að tiltölulega fá tryggingafyrirtæki hafi viljað skrifa tryggingar á íslensku bankana að undanförnu, þ.e. framboð á þeim hefur verið lítið og afar lítil viðskipti verið með þau á markaði.