Skuldatryggingaálag bankanna hefur nú undanfarna daga farið í svipaðar hæðir og þegar það sló met í marsmánuði á þessu ári. Fram kemur í frétt breska blaðsins Financial Times að miðlarar séu að taka stöðu gegn íslenska hagkerfinu og að álagið á Glitni og Kaupþing hafi náð 1.000 punktum um tíma á mánudaginn sl.

Þó dró aðeins úr álaginu í gær og samkvæmt nýjustu tölum er álagið nú hæst á Kaupþing og Glitni eða 985 punktar á hvorn þeirra. Álagið á Landsbankann er nú 645 punktar. Fyrir tæpum tveimur vikum stóð álagið í 945 punktum á Kaupþing, 935 á Glitni og 600 punktar á Landsbankann. Álagið á Glitni hefur því hækkað mest frá þeim tíma, eða um 50 punkta. Álagið á íslenska ríkið stendur nú í 265 punktum.

Til samanburðar má nefna að iTraxx- vísitalan stendur nú í 86 punkta álagi. Þegar álagið fór síðast í þessar hæðir, beindust sjónir margra að vogunarsjóðum og talið var að þeir reyndu að þrýsta álaginu markvisst upp til að hagnast á skortstöðu sinni í hlutabréfum og íslensku krónunni. Í apríl tók álagið hins vegar að lækka og fór til að mynda niður fyrir 400 punkta í maí. Það má því segja að lækkunin hafi verið skammgóður vermir því álagið nálgast nú fyrra met.