Fjárfestar þurfa í dag að greiða þrefalt meira en fyrir tveimur mánuðum til að tryggja sig gegn greiðslufalli skulda Berkshire Hathaway, fjárfestingafélags Warrens Buffet. Þetta er talið til marks um hversu svartsýnn og vonlítill markaðurinn er gagnvart framvindu markaða í nánustu framtíð. Bloomberg segir frá þessu í kvöld.

Skuldatryggingaálag Berkshire er nú fjórfalt hærra en hjá keppinautnum Travelers Cos. Berkshire er með AAA einkunn frá helstu matsfyrirtækjum, en skuldatryggingaálag félagsins jafnast nú á við álag fyrirtækja með Baa3 mat frá Moody‘s, einu stigi fyrir ofan það sem flokkast sem draslbréf (e. junk bonds). Vangaveltur þess efnis að Berkshire muni tapa 37 milljörðum dollara vegna veðmála á stöðu hlutabréfamarkaða eftir áratug.

Stórir hluthafar í Berkshire hafa bent á fáránleika svo hás álags, og sagt að fjárfestar séu að vernda sig gegn núverandi aðstæðum og miði við að þær vari að eilífu. Einn þeirra segir í samtali við Bloomberg að spár um hátt í 40 milljarða tap Berkshire á þeim viðskiptum sem er getið að ofan muni aldrei rætast.

Skuldatryggingaálag Berkshire er nú 415 punktar. Það þýðir að til að verja sig gegn greiðslufalli á 10 milljóna dollara skuldabréfi frá félaginu til fimm ára þarf að reiða fram 415.000 dollara. Til samanburðar var meðalskuldatryggingaálag fyrirtækja með Baa3-lánshæfiseinkunn frá Moody‘s 383 punktar, að því er Bloomberg greinir frá.