Skuldatryggingaálag íslenska ríkisins hefur verið að lækka allnokkuð núna í marsmánuði. Álagið til fimm ára sem stóð í um 1.080 punktum í byrjun mánaðarins er komið niður í 892 punkta nú.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka í morgun.

Þar kemur fram að lækkun merkir að fjárfestar telja minni líkur á því að ríkið lendir í greiðslufalli. Greining Íslandsbanka segir lækkunina vera í takti við alþjóðlega þróun en skuldatryggingaálag ríkja hefur almennt verið að lækka í mánuðinum.

„Er það talið merki um minni áhættufælni og að bankakreppan hafi hugsanlega snert  botninn fyrr í mánuðinum,“ segir í Morgunkorni.

„Þess má geta að skuldatryggingaálag íslenska ríkisins fór úr tæplega 400 punktum í tæplega 1.500 punkta við hrun bankanna í byrjun október í fyrra.“

Þá segir Greining Íslandsbanka að þrátt fyrir lækkun síðustu vikna er skuldatryggingaálag íslenska ríkisins enn hátt í samanburði við önnur ríki.

Sjá nánar Morgunkorn Íslandsbanka.