Skuldatryggingaálag á íslenska ríkið hefur lækkað umtalsvert frá áramótum. Hæst fór það í tæpa 1.100 punkta, í lok febrúar, en hefur síðan þá lækkað myndarlega.

Um þetta er fjallað í Hagsjá, vefriti hagfræðideildar Landsbankans í dag en þann 2. nóvember síðastliðinn var skuldatryggingaálagið svo komið niður í 338 punkta, en hefur hækkað lítillega og stendur nú í 368 punktum.

Hagfræðideildin segir að álagið standi nú í svipuðum hæðum og það gerði fyrir hrun íslensku viðskiptabankanna í október í fyrra. Skuldatryggingaálag ríkisins var að meðaltali 1.017 punktar í október í fyrra og 328 punktar í september sama ár. Það sem af er nóvember hefur álagið aftur á móti verið að meðaltali 348 punktar.