Álag skuldatrygginga íslensku viðskiptabankanna hefur lækkað hröðum skrefum undanfarna viðskiptadaga. Um miðja síðustu viku náði skuldatryggingaálag Kaupþings 1.040 punktum, en í gær hafði það fallið um 200 punkta síðan þá.

Álag Glitnis á miðvikudag var síðan 1.050 punktar, en er nú 870 punktar. Álag Landsbankans hefur lækkað um 140 punkta á sama tímabili og var 590 punktar í gær.

Erlendir fjölmiðlar og greiningardeildir hafa komið íslensku bönkunum til varnar á síðustu dögum í kjölfar uppgjöra þeirra fyrir fyrri helming ársins, sem kom erlendum aðilum þægilega á óvart.

Royal Bank of Scotland sagði til að mynda í greiningu sinni á íslensku viðskiptabönkunum fyrr í vikunni að álag bankanna ætti lítið skylt við raunstöðu þeirra, og að afar lítil hætta væri á hruni bankakerfisins. Hækkun álagsins væri aðallega tæknilegs eðlis, en eins og margoft hefur komið fram er markaðurinn með skuldatryggingar afar þunnur og fáir leikmenn á honum.