Skuldatryggingaálag á skuldbindingar íslenska ríkisins til fimm ára hefur einnig lækkað mikið frá því í upphafi mánaðar. Álagið stendur nú í 260 punktum en var 410 punktar í byrjun apríl.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis.

Til samanburðar má geta þess að álagið var innan við 20 punkta í október síðastliðnum og á bilinu 5-15 punktar síðastliðið sumar.

„Ljóst er að ef þessi viðsnúningur er varanlegur gætu skilyrði fyrir lántöku ríkissjóðs orðið ásættanleg innan skamms en eins og kunnugt er  hyggst Seðlabankinn í samvinnu við stjórnvöld taka lán til að efla gjaldeyrisforðann  þegar skilyrði á alþjóðlegum lánamörkuðum verða hagstæðari. Eins og við sögðum frá í Morgunkorninu í gær þá er útlit fyrir að bið Seðlabankans geri það að verkum að þörfin fyrir lántökuna minnki enda mun hagstæð skilyrði varla eiga sér stað fyrr en alþjóðlega lánsfjárkreppan gengur niður og eftirspurnin eftir stórtækum aðgerðum hefur þá að sama skapi skroppið saman,“ segir Greining Glitnis í Morgunkorni.