Álagið á skuldatryggingar íslensku bankanna hefur verið í kastljósi fjármálamarkaða á Vesturlöndum í dag, að fram kemur í dálknum Alphaville sem birtist á vefsíðu breska blaðsins Financial Times. Í kjölfar þess að íslenska ríkið þjóðnýtti Glitni fóru skuldatryggingarálag bankans í 1,450 punkta að sögn blaðsins. Þetta þýðir að það kost 1,450,000 evrur að tryggja 10 milljónir evra í skuldum Glitnis. Er þetta helmingi meira en við upphaf mánaðar. Bent er á í dálknum að ekki voru mikil viðskipti í skuldatryggingum Glitnis.

Skuldatryggingaálagið á íslenska ríkið hækkaði 23 punkta og fór í 390 punkta. Álagið á hina viðskiptabankanna hækkaði einnig. Álagið á Landsbankann 1150 punkta en var 480 í burjun mánaðarins. Kaupþing fór upp í 1345 punkta en var 750 í byrjun mánaðarins.

Alphaville hefur eftir sérfræðingum að þrýstingurinn á íslensku bankanna hafi verið mikill vegna ástandsins í hagkerfinu og hversu skuldsettir þeir eru. Þar sem að Glitnir er minnstur viðskiptabankanna hefur pressan á hann verið mestur auk þess sem að haft er eftir sérfræðingum að hann hafi verið skuldsettastur.

Í dálknum er haft eftir Nigell Rendell, sérfræðingi hjá RBC Capital Markets, að þróunin á mörkuðum sé meðal annars tilkominn vegna vaxandi efasemda um að kaup bandaríska ríkisins á eitruðum veðum af bönkum og fjármálastofnunum muni skila árangri. Þær efasemdir heyrist nú í Evrópu. Hann segir að íslensku bankarnir standi klárlega í fremstu víglínu í þessari orrahríð en hinsvegar sé það svo að vaxandi áhættufælni sé að grafa undan stöðu lítilla banka allstaðar.