Skuldatryggingaálag íslensku bankanna lækkaði verulega í kjölfar tilkynningar Seðlabankans í gær um gjaldeyrisskiptasamninga við þrjá norræna seðlabanka.

Álagið lækkaði um 50-55 punkta og fór niður í 433 punkta hjá Kaupþingi [ KAUP ], 385 punkta hjá Glitni [ GLB ] og 215 punkta hjá Landsbanka [ LAIS ].

Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans en tölurnar eru meðaltal kaup- og sölutilboða samkvæmt upplýsingum frá Credit Suisse. Álagið á íslensku bankana hefur ekki verið lægra frá því í byrjun ársins.

Dregur úr áhyggjum erlendra fjárfesta

Í Vegvísi segir að tilkynning Seðlabankans sé til þess fallin að draga úr áhyggjum erlendra fjárfesta að Seðlabankinn geti sinnt hlutverki sínu sem bakhjarl íslenska bankakerfisins og auki því fjármögnunarmöguleika bankanna í bráð.

Í Vegvísi segir að styrkur íslenska fjármálakerfisins hafi aukist við aðgerðir gærdagsins, þar sem þær auki getu bankanna til að leysa mál sín sjálfir á markaði minnki líkurnar á því að þeir þurfi að leita til Seðlabankans.

Helsta vandamálið skertur vaxtamunur á gjaldmiðlaskiptamarkaði

Í Hálffimm fréttum Kaupþings í gær kom einnig fram að aðgerðir Seðlabankans væru jákvæðar. Hins vegar væri helsta vandamál krónunnar um þessar mundir skertur vaxtamunur á gjaldmiðlaskiptamarkaði sem lýsti sér m.a. í því að stöðutaka með krónunni í framvirkum samningum bæri enga vexti og gerði hana að síðri kosti.

Kjör á gjaldmiðlaskiptamarkaði bötnuðu ekki

„Kjör á gjaldmiðlaskiptamarkaði bötnuðu ekki í kjölfar tilkynningarinnar í dag - enda hafa aðgerðirnar ekki bein áhrif á aðgengi bankanna að gjaldeyri. Óbeinu áhrifin af aðgerðum dagsins eru þó strax farin að láta á sér kræla í formi lækkunar skuldatryggingarálags á íslensku bankanna í dag. Helsta forsenda þess að gjaldmiðlaskiptamarkaðurinn komist í betra horf er að aðgengi bankanna að erlendum gjaldeyri batni svo að þeir geti aftur farið að bjóða þann vaxtamun við útlönd sem vextir Seðlabankans gefa til kynna. Lægra skuldatryggingarálag er vísbending um betri fjármögnunarkjör en þó er enn töluvert í að þau geti talist vel ásættanleg svo að markaðurinn færist í fyra horf. Að mati Greiningardeildar mun það stuðla að styrkingu krónunnar á ný þegar fjármögnunarkjörin færast í betra horf,“ segir í Hálffimm fréttum.