Álag á skuldatryggingar íslensku bankanna er óeðlilega hátt en ástand íslensks hagkerfis og fjármálageira er gott, eins og viðbrögð við "smákreppunni" 2006 sýndu, sem og stöðugleiki í umhleypingum undanfarinna vikna. Þetta kemur fram  í nýrri skýrslu, sem Richard Portes, prófessor við London Business School, og Friðrik Már Baldursson, prófessor við Háskólann í Reykjavík, gerðu fyrir Viðskiptaráð Íslands og kynnt var í London í morgun og nánar verður fjallað um í Viðskiptablaðinu á morgun. Þeir segja að ekki sé óeðlilegt að ætla að skuldatryggingaálagið lækki á næstunni.

Vert er að hafa áhyggjur af ójafnvægi í hagkerfinu, miklum viðskiptahalla og eftirspurn, segir í skýrslunni. Í niðurstöðum skýrslunnar segir þó að viðskiptahallinn hafi lækkað verulega síðan 2006, þegar hann náði hámarki og að það líti út fyrir að sú þróun haldi áfram. Portes og Friðrik segja að vegna skekkju í mælingum mælist hallinn hærri en hann í raun og veru sé og mælast til þess að reynt verði að bæta upplýsingaöflun og vinnslu.