Bestu kaupin eru í skuldatryggingum íslensku bankanna, ef miðað er við banka með hátt skuldatryggingaálag, að því er fram kemur í nýrri skýrslu frá Credit Sights greiningarfyrirtækinu.

Í skýrslunni, sem fjallar um evrópska banka, kemur fram að Credit Sights hefur árið með því að ráðleggja fjárfestum að markaðsvoga fjármálafyrirtæki í eignasafni sínu, "en [við] leitum að tækifæri til að færa okkur yfir í yfirvogun fyrir banka," segir í skýrslunni.

Um íslensku bankana segir, sem fyrr segir, að íslensku bankarnir séu hagstæðustu kaupin miðað við aðra banka með hátt skuldatryggingaálag. "Við höfum hingað til gagnrýnt [íslenska] geirann af nokkurri hörku, og við erum áfram þeirrar skoðunar að áhætta [þar] sé meiri en hjá sambærilegum bönkum.

Núverandi skuldatryggingaálag ofmetur hins vegar þessa áhættu og endurspeglar ekki vinnu bankanna síðustu 18 mánuði við að styrkja lánstraust sitt, ekki síst umbætur í fjármögnun og lausafjárstöðu," segir í greiningunni.

Þá segir að skýrsluhöfundar hafi enn varann á gagnvart Kaupþingi, með tilliti til mála sem tengist yfirtöku á hollenska bankanum NIBC, "en skuldatryggingaálag Glitnis, og sérstaklega Landsbanka, sem er 230 og 170 punktar til fimm ára, ætti að lækka umtalsvert þegar markaðsaðstæður lagast," segja skýrsluhöfundar.