Skuldatryggingaálag íslensku viðskiptabankanna hækkaði mikið í gær.

Það hækkaði mest hjá Landsbankanum, eða um 21% milli daga, og var 787,5 stig; álagið á Glitni hækkaði um 16%, í 1200 stig, og Kaupþing hækkaði um 11%, í 1049,6 stig, samkvæmt upplýsingum frá Bloomberg.

Skuldatryggingaálag banka hefur á heimsvísu rokið upp á síðustu dögum. Skuldatryggingaálagið mælir hve miklar líkur fjárfestar telja á að fyrirtækið verði gjaldþrota.

Mikil óvissa ríkir á mörkuðum í kjölfar gjaldþrots fjárfestingarbankans Lehman Brothers og kaupa Bank of America á Merril Lynch. Við það bætist björgun seðlabanka Bandaríkjanna á tryggingarisanum AIG. Sérfræðingar nefna einnig að mikið verðbil sé á milli framboðsverðs og eftirspurnarverðs.

Á undanförnum dögum hefur bilið vaxið. Þeir segja að það gefi til kynna óskilvirkan markað.